Smásala í Bretlandi dróst saman um 0,4% í október samkvæmt tölum sem hagstofan þarlendis birti í dag. Smásölutölurnar eru undir væntingum markaðarins en sérfræðingar bjuggust við óbreyttri smásölu milli mánaða. Að mati sérfræðinga bendir þetta til þess að hækkandi vextir séu farnir að draga úr einkaneyslu. Seðlabanki Englands hefur hækkað stýrivexti sína fimm sinnum síðan í nóvember í fyrra en stýrivextir bankans eru núna 4,75%.

Í Vegvísi Landsbankans kemur fram að sumir sérfræðingar, sem Bloomberg hafði samband við, telja að stýrivextir hafi nú náð hámarki sínu en bankinn hélt stýrivöxtum óbreyttum á síðasta vaxtaákvörðunarfundi sínum fyrr í mánuðinum. Bankinn hefur nú þegar lækkað hagvaxtarspá sína fyrir árið 2005 úr 3,1% í 2,5% og er það vísbending um að hann telji sig hafa komið í veg fyrir frekari þenslu í Bretlandi. Fyrrgreindar niðurstöður eru því líklegar til að draga úr líkum á frekari stýrivaxtahækkunum á næsta fundi seðlabankans.