Smásala í Bandaríkjunum dróst saman um 0,2% milli mánaða í mars síðastliðnum. Þá voru opinberar hagtölur yfir smásölu í febrúar uppfærðar úr 0,1% aukningu niður í 0,3% samdrátt. Sala hjá bandarískum smásölum hefur því minnkað tvo mánuði í röð, en það hefur ekki gerst síðan í upphafi árs 2015. MarketWatch greinir frá.

Ástæðan fyrir samdrættinum er rakin til ódýrara eldsneytis og aukins söluhvata hjá bílasölum. Þá gætu hægari skattaendurgreiðslur en venjulega hafa stuðlað að minni einkaneyslu. Sala dróst saman í mars hjá bílasölum, bensínstöðvum og veitingastöðum, en var lífleg hjá fataverslunum og raftækjaverslunum.

Samdrátturinn í smásölu er talinn gefa vísbendingu um dræman hagvöxt á fyrsta ársfjórðungi. Samkvæmt skoðanakönnun MarketWatch meðal hagfræðinga er talið að hagvöxturinn hafi verið 1,6% á fyrstu þremur mánuðum ársins.

MarketWatch segir bandaríska smásöluaðila þó á heildina litið búa við góðan rekstur og heilbrigðan efnahag. Þá telja hagfræðingar að smásala muni vaxa næstu mánuðina í ljósi mikillar bjartsýni bandarískra heimila, vaxandi launa og skattaendurgreiðslna fyrir árið 2016.