Velta í dagvöruverslun minnkaði um 2,2% í júní síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi. Á breytilegu verðlagi jókst velta í dagvöruverslun hins vegar um 13,5% á milli ára.

Verð á dagvöru hækkaði um 16,1% á einu ári, frá júní í fyrra til júní á þessu ári. Á milli mánaðanna maí og júní minnkaði velta dagvöruverslana um 3,4% á föstu verðlagi og um 2,6% á breytilegu verðlagi.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Rannsóknarseturs verslunarinnar á Bifröst.

Í skýrslunni kemur fram að sala áfengis var 9,6% minni í júní miðað við sama mánuð árið áður á föstu verðlagi og minnkaði um 3,7% á breytilegu verðlagi.

Á milli mánaðanna maí og júní minnkaði velta áfengisverslunar um 8,1% á föstu verðlagi og á breytilegu verðlagi dróst veltan saman um 7,4%. Verð á áfengi var 6,5% hærra í júní síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra samkvæmt verðmælingu Hagstofu Íslands.

Þá minnkaði fataverslun einnig á milli ára og var 7,7% minni í júní miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi og 2,2% á breytilegu verðlagi.

Á milli mánaðanna maí og júní minnkaði veltan um 5,1% á breytilegu verðlagi og um 5,7% á föstu verðlagi. Verð á fötum hækkaði um 6% á einu ári.

Þá varð einnig samdráttur í skóverslun í júní miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi sem nam 1,9% en á breytilegu verðlagi jókst hins vegar veltan um 8% á milli ára. Skóverslun jókst á föstu verðlagi um 4,9% í júní sé miðað við mánuðinn á undan og um 7,3% á breytilegu verðlagi. Verð á skóm í júní hækkað um 10,1% frá því í júní í fyrra.

Einnig kemur fram að í júní minnkaði velta í húsgagnaverslun um 8,2% á föstu verðlagi miðað við mánuðinn á undan og um 10,4% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur hækkað um 7,6% frá því um áramótin.

Samanlögð velta í þeim flokkum smásöluverslunar sem mælingar Rannsóknaseturs verslunarinnar ná til minnkaði um 2,3% á milli júní á þessu ári og júní í fyrra á föstu verðlagi en jókst um 10,2% á breytilegu verðlagi.

Útgjöld og neysla

Í niðurstöðu skýrslu Rannsóknarseturs kemur fram að samdráttur virðist hafa orðið í flestum tegunda verslunar í júní, sem er í samræmi við minnkandi kaupmátt ráðstöfunartekna. Samkvæmt mælingu Hagstofunnar var kaupmáttur launa 3,6% minni í maí síðastliðnum miðað við maí á síðasta ári.

„Verðhækkanir, aukinn vaxtakostnaður og almenn verðbólga veldur minnkandi einkaneyslu og samdrætti í verslun. Sem dæmi má nefna að verð á dagvöru hefur hækkað um 11,1% á síðustu sex mánuðum, eða frá áramótum,“ segir í skýrslunni.

„Ætla má að verðhækkanir á matvöru hafi áhrif á aðra tegund verslunar, því minna verður til ráðstöfunar í dýrari fjárfestingar. Hærra matarverð veldur því að neytendur spara við sig kaup á ýmissi dýrari sérvöru sem hægt er að fresta til betri tíma. Þá er almennt talið að þegar matvælaverð hækkar eins og nú er velji neytendur fremur ódýrari matvöru en þá dýrari.“

Þá kemur fram að fjölgun í komu erlendra ferðamanna til landsins í júní um 1,5% frá júní í fyrra og hagstæðara gengi krónunnar fyrir þá sem nota erlenda mynt ætti að leiða til meiri eyðslu þessara erlendu gesta í mat og drykk hér innanlands.

„Það virðist þó ekki nægja til að vega upp þann samdrátt sem varð í verslun í síðasta mánuði,“ segir í skýrslunni.

„Minna má á að samkvæmt samantekt Rannsóknaseturs verslunarinnar og Hagfræðistofnun HÍ eru horfur á að enginn vöxtur verði í dagvöruverslun það sem eftir er árs, sem er töluverð breyting frá því sem verið hefur undanfarin ár.“