Borið hefur á samdrætti í sölu ferðavagna en það eru hjól- og fellihýsi og tjaldvagnar. Sala er þó áfram góð að sögn viðmælenda Viðskiptablaðsins.

Mest hefur dregið úr sölu á hjólhýsum. Björgvin Barðdal, framkvæmdastjóri Seglagerðarinnar Ægis, segir sölu ganga nokkuð vel þrátt fyrir samdrátt. „Fólk hugsar sig nú meira um áður en það kaupir vagn, en við finnum þó fyrir miklum áhuga fólks á ferðum innanlands,“ segir Björgvin. Hann segir Seglagerðina selja vagnana á kostnaðarverði. Þegar verð var ákveðið gerðu menn ekki ráð fyrir svona miklum gengisbreytingum.Þeir einbeiti sér einnig að ýmiss konar þjónustu og aukahlutum. Björgvin segir menn þokkalega bjartsýna á framtíðarsölu. „Um þessar mundir nær sala hámarki en hápunkturinn er ávallt um mánaðamótin júní – júlí.“

Arnar Barðdal, framkvæmdastjóri Víkurvagna, tekur í sama streng og Björgvin. „Það var ákveðin sprenging í sölu ferðavagna 2006 og 2007. Örlítill samdráttur kemur því ekki á óvart. Salan er nú aðallega á ódýrari vögnum en Víkurvagnar hafa selt mikið af þeim í sumar,” segir Arnar og bætir við að gott veður undanfarið hjálpi til.

„Hátt gengi krónunnar gerir það einnig að verkum að fleiri ferðast innanlands nú en í fyrra.“ Arnar segir að um 60% viðskiptavina taki lán fyrir kaupunum. Auðvelt sé að fjármagna slík lán því vagnarnir haldi virði sínu vel. Algengt sé að fólk taki allt að 80% lán fyrir vögnunum.