Röng efnahagsstefna núverandi stjórnvalda er ástæða þess að kreppan á Íslandi er eins djúp og raun ber vitni. Efnahagsstefnan er ekki röng í einstökum atriðum, heldur nánast öllum.

Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði, komst svo að orði á morgunverðarfundi  Deloitte og Samtaka verslunar og þjónustu í dag. Ragnar fjallaði um áhrif skattahækkana á hagvöxt á Íslandi. Hann sagði að vissulega hafi verið um fjármálakreppu að ræða í upphafi, en hún hafi að mestu lent á bankakerfinu. Helstu framleiðsluþættir séu enn ósnertir, sem eru mannauður og náttúruauðlindir.

Þættirnir hafi hinsvegar verið illa nýttir af stjórnvöldum og að margar ákvarðanir þeirra hafi verið þveröfugar miðað við það sem rétt er að gera í stöðunni. Nefndi Ragnar í því samhengi miklar skattahækkanir, háa vexti og árásir og hótanir í garð grunnatvinnuvega, líkt og nýtingu orkuauðlinda og sjávarútveginn. Allt þetta leiði til óvissu og óstöðugleika.

Samdráttur vergrar landsframleiðslu síðasta árs nam 3,5% en að mati Ragnars hefði vöxturinn getað numið 2%, ef rétt hefði verið haldið á spilunum. Munar því um 5,5% og tapið sem skrifast á stefnu stjórnvalda um 80 milljarðar króna, samkvæmt útreikningum Ragnars sem hann sagði lauslega.

Ragnar sagði að stjórnvöld þurfi að bregðast við ástandinu, meðal annars með skattalækkunum. Því sé þó öfugt farið í dag. „Það kæmi ekki á óvart að ef einhver finnur ný tækifæri þá mun ríki skattleggja það sérstaklega,“ sagði Ragnar. Nauðsynlegt sé að gera fjárfestingar arðvænlegri og nauðsynlegt sé að lækka skatta, lækka vaxtastig og draga úr áhættu. Þannig sé hægt að auka hagvöxt að nýju.