Steinull hf., sem áður hét Steinullarverksmiðjan hf., hóf rekstur verksmiðju á Sauðárkróki árið 1985 og framleiðir steinullareinangrun úr svörtum fjörusandi. Þar hafa menn nú dregið verulega úr framleiðslunni vegna ástandsins í þjóðfélaginu.

Einar Einarsson framkvæmdastjóri segir að strax í febrúar á þessu ári hafi verið dregið úr framleiðslunni og fækkað úr þrem í tvær vaktir á sólarhring. Þrátt fyrir það hafi ekki verið sagt upp nema 7 starfsmönnum af 38.

„Þá tökum við tveggja vikna sumarfrí núna sem hefur ekki verið gert áður. Einnig reynum við að hagræða eins og kostur er. Enda erum við að horfa á um 50% samdrátt á innanlandsmarkaði.“

Veltan á síðustu árum hefur að sögn Einars verið yfir einn milljarður króna á ári en fellur að líkindum niður í um 600 milljónir á þessu ári vegna samdráttarins.

Í venjulegu árferði hafa verið framleiddir um 170 þúsund rúmmetrar af steinull á ári. Þar af hefur um þriðjungur verið fluttur út. Segir Einar að fall íslensku krónunnar hafi þó haft jákvæð áhrif á útflutninginn sem sé svipaður að magni til en skili meiri arðsemi en áður var. Það hjálpi því til að halda afkomunni réttu megin við núllið.