Þýska hagkerfið skrapp saman um 0,1% á öðrum ársfjórðungi milli fjórðunga. Samdráttur í útflutningi vegna tolladeilna, Brexit, og vandræða í bílaiðnaðinum heima fyrir eru sagðar meginástæður .

Samkvæmt könnun meðal aðila á fjármálamarkaði sem kynnt var í gær ríkir nú mesta svartsýni í efnahagsmálum síðan 2011, og hagvöxtur síðastliðið ár mælist 0,4%, sem er það lægsta í 6 ár.

Samdrátturinn er töluverður viðsnúningur frá þeim 0,4% vexti sem mældist á fyrsta fjórðungi ársins, en á öðrum fjórðungi mældist 0,2% vöxtur á evrusvæðinu í heild.

Tölurnar auka þrýsting á þýsk yfirvöld um að auka opinber útgjöld til að kynda undir hagvöxt, en vextir 10 ára þýskra ríkisskuldabréfa lækkuðu í mínus 0,624% eftir að tilkynnt var um samdráttinn, og eru nú í sögulegu lágmarki eftir að hafa lækkað um 0,35 prósentustig á síðustu 30 dögum.

Fyrir birtingu talnanna sagði Angela Merkel, kanslari Þýskalands, að enn sem komið væri sæi hún ekki þörf á opinberri innspýtingu fjármagns, en brugðist yrði við í takt við þróun mála, sem hún viðurkenndi að gæti versnað á næstunni.