Tölvuleikjasala risanna þriggja Microsoft, Sony og Nintento, dróst saman á öðrum ársfjórðungi, samanborið við árið áður. Meðvindurinn sem félögin fengu í Covid faraldrinum fer nú dvínandi, að því er kemur fram í frétt á CNBC.

Bandaríkjamenn eyddu 12,4 milljörðum dala í tölvuleiki á fjórðungnum, samkvæmt gögnum markaðsrannsóknafyrirtækisins NPD, sem er 13% samdráttur á milli ára. Ýmsir þættir spila inn í, en sérfræðingar telja tilslakanir á takmörkunum vegna heimsfaraldursins hafa úrslitaáhrif. Fólk sé nú í auknum mæli að verja frítímanum sínum út úr húsi með öðru fólki í stað þess að spila tölvuleiki.

Tekjur risanna minnka

Velta á tölvuleikjasviði Sony dróst saman um 2% á milli ára á meðan rekstrartekjur minnkuðu um 37%. Félagið hefur auk þess lækkað hagnaðarspá sína fyrir árið um 16%.

Heildartekjur Microsoft af tölvuleikjum dróst saman um 7% á milli ára. Sala á leikjatölvu félagsins Xbox dróst auk þess saman um 11%. Hagnaður tölvuleikjaframleiðandans Activision Blizzard, sem Microsoft keypt fyrr á árinu, dróst saman um 70% á milli ára.

Rekstrarhagnaður Nintento dróst saman um 15% á milli ára á fjórðungnum, en félagið segir skortur á hálfleiðurum helstu ástæðu þess. Félagið hafi ekki getað framleitt og selt eins margar Switch leikjatölvur, en sala félagsins á leikjatölvunum minnkaði um 23% á milli ára.