Ellefu prósent samdráttur að raunvirði varð í veltu smásöluverslunar á milli áranna 2008 og 2009. Samdráttur frá árinu 2007 nam 15,5%. Þetta kemur fram í Árbók verslunarinnar sem Rannsóknarsetur verslunarinnar á Bifröst gefur út. Hlutur verslunar í landsframleiðslu árið 2009 var 10,5% og hefur haldist nokkuð stöðugur síðastliðinn áratug. Hæst var hlutfallið 11,5%.

Raunsamdráttur í byggingarvöruverslun nam 45,5%, í raftækjaverslun 35,7% og 25,6% samdráttur varð í húsgagnaverslun. Líkt og áður var flokkur dagvöru sá veltuhæsti í smásölu en veltan í þeim flokki jókst um 14,7% á milli ára. Vöxturinn á sér fyrst og fremst stað í stórmörkuðum en hlutdeild þeirra var rúm 86% af heildardagvöruverslun ársins. Segir í Árbók verslunarinnar að neytendur versli frekar í stórmarkaði sem bjóði lægra verð og lægra þjónustustig.

Mikil aukning í veltu með áfengi og tóbak

Velta verslunar með áfengi og tóbak nam 25,3 milljörðum króna árið 2009. Er það 18,9% hærri velta en árið 2008. Hækkunina má rekja til verðhækkana en á stuttum tíma hefur áfengisgjald hækkað þrisvar, um 12% í desember 2008, um 15% í maí 2009 og loks um 10% í ársbyrjun 2010. Að magni til dróst áfengisverslun saman um 9,2% á milli áranna 2008 og 2009. Á sama tíma hækkaði verð á áfengi um 31,2% að jafnaði.