Iðnaðarframleiðsla dróst saman í Þýskalandi í apríl, annan mánuðinn í röð. Vegvísir Landsbankans greinir frá þessu.

Framleiðslan leiðrétt fyrir árstíðasveiflum dróst saman um 0,8% í marsmánuði sem er töluvert undir meðalspám markaðarins um 0,2% aukningu.

Framleiðsla hefur nú dregist saman í Þýskalandi fimm mánuði í röð.

Hjól þýska hagkerfisins virðast vera að hægja á sér nú þegar olíuverð er nærri sögulegu hámarki og veldur meðal annars minnkandi kaupmætti fyrirtækja og heimila. Sterk evra dregur úr útflutningstekjum og samkeppnishæfni þýskra fyrirtækja og bætir því gráu ofan á svart.

Nýlega  tilkynnti stjórn seðlabanka Evrópu að stýrivextir héldust óbreyttir á svæðinu, eða í 4%.

Haft er eftir Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóra seðlabanka Evrópu, að ekki væri ólíklegt að seðlabankinn hækkaði stýrivexti á Evrusvæðinu í næsta mánuði. Ef það verður raunin gæti hægt enn frekar á hagkerfi Þýskalands.