Hagstofan spáir því að samdráttur landsframleiðslu verði um 2,9% á þessu ári. Í nýútkominni þjóðhagsspá Hagstofunnar fyrir árin 2010-2015 er því spáð að hagvöxtur verði jákvæður strax á næsta ári og verði svo út spátímann. Hagvöxtur miðast við að stóriðjuframkvæmdir hefjist árið 2011 og að heimilin verði ekki fyrir frekari skakkaföllum.

Gert er ráð fyrir að heimilin hafi náð að stöðva samdrátt í einkaneyslu þrátt fyrir að kaupmáttur ráðstöfunartekna dragist enn saman. Samneysla mun dragast saman til 2012 en snýst í vöxt árið 2014 samkvæmt spánni.

Óvissuþættir í spánni eru fjölmargir og meðal þeirra neikvæðu er að áframhaldandi tafir verði á stóriðjuframkvæmdum, áhrif eldgossins í Eyjafjallajökli valdi samdrætti í ferðaþjónustu, ástand á erlendum fjármálamörkuðum versni, efnahagsbati í viðskiptalöndum Íslands hægist og skuldavandi heimila og fyrirtækja valdi áframhaldandi samdrætti í eftirspurn.