Samdráttur hefur nær hvergi verið meiri en á Íslandi meðal þeirra ríkja sem voru í efnahagslegu samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn á árunum 2009 og 2010. Þetta kemur fram í skýrslu AGS sem Morgunblaðið vitnar í. Aðeins Rúmenía virðist falla í sama flokk en þar mældist meiri samdráttur árið 2009 auk þess sem Ísland og Rúmenía eru einu löndin sem ekki bjuggu við hagvöxt árið 2010. Þá spáir AGS hagvexti í öllum ríkjum á þessu ári en einna minnstum á Íslandi.

Morgunblaðið vitnar einnig til viðtals við James Roaf, höfund skýrslunnar, sem birtist á vef AGS í apríl og m.a. var vitnað til hér á vb.is. Þar sagði Roaf álitamál hvort skuldastaða Íslands væri sjálfbær en þess má geta að hann leiðrétti þau ummæli sín síðar.