Að öllum líkindum mun verða mikill samdráttur í bílainnflutningi á þessu ári, segir greiningardeild Kaupþings banka.

Bílainnflutningur hefur sögulega haft mikla fylgni við gengisþróun og af þeim sökum ætti 11% veiking á gengi krónunnar frá áramótum að draga úr hvata til innflutnings.

Á síðastliðnu ári voru nýskráðar nærri 25 þúsund bifreiðar. Til samanburðar
voru fluttar inn 18.600 nýjar bifreiðar árið1987, segir greiningardeild Kaupþings banka.

Bílainnflutningur síðastliðinna tveggja ára er umfram endurnýjunarþörf bílaflotans, 16 þúsund bifreiðar voru fluttar inn á árinu 2004 en meðaltal síðustu 10 ára er um 13 þúsund bifreiðar á ári.

Líklegt má telja að offjárfesting hafi átt sér stað en í dag eru skráð um 255 þúsund ökutæki á um 300 þúsund manna þjóð.

Meðalaldur bílaflotans hefur lækkað verulega og eru um 160 þúsund ökutæki 10 ára eða yngri eða sem nemur um 63% af heildarbílaflotanum.