Blikur eru á lofti í íslensku hagkerfi eftir gjaldþrot Wow air og loðnubrest. Greiningaraðilar búast við lækkandi hagvexti og jafnvel samdrætti í landsframleiðslu. Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, segir að það geti skapað ákveðin fjárfestingatækifæri fyrir lífeyrissjóðina, til að mynda með fjárfestingum í óskráðum félögum í gegnum fjárfestingasjóði.

„Þær fjárfestingar eru yfirleitt sérhæfðar fjárfestingar sem krefjast ákveðinnar sérþekkingar og því fjárfestum við meira í slíkum fyrirtækjum í gegnum sjóði. Ef það verður samdráttur, sem ég tel að verði þó óverulegur, hafa lífeyrissjóðirnir ákveðnu hlutverki að gegna og það geta skapast ákveðin tækifæri. Lífeyrissjóðirnir hafa verið duglegir að fjárfesta í þannig sjóðum.“

Lífeyrissjóðirnir hafa aukið verulega við húsnæðislán beint til sjóðfélaga sinna á síðustu árum. „Við höfum lánað mjög mikið á síðustu árum. Við lítum á lífeyrissjóðslánin sem góða þjónustu fyrir sjóðfélagana en á sama tíma góðan ávöxtunarkost fyrir lífeyrissjóðina. Þó að það verði einhver samdráttur í lífeyrissjóðslánunum þá er það alls ekkert vandamál. Það má segja að út frá sjóðastýringu og ávöxtunarsjónarmiðum hafi útlán á undanförnum tveimur árum verið í efri mörkunum á því sem æskilegt er.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .