Samdráttur varð í bæði Þýskalandi og Frakklandi á fjórða ársfjórðungi síðasta árs, að því er segir í frétt Bloomberg. Landsframleiðsla í Þýskalandi féll um ein 0,6% á fjórðungnum, en hópur hagfræðinga hafði spáð 0,5% samdrætti. Þýski seðlabankinn spáir nú aðeins 0,4% hagvexti á þessu ári og vísar til áhrifa af evrukrísunni. Þó eru merki um að þýska hagkerfið sé strax farið að jafna sig eftir niðursveifluna á síðasta ársfjórðungi og hefur bjartsýni aukist meðal stjórnarmanna í fyrirtækjum og meðal fjárfesta.

Í Frakklandi dróst landsframleiðsla saman um 0,3% á fjórða ársfjórðungi síðasta árs og líkt og í tilviki Þýskalands var samdrátturinn meiri en hagfræðingar höfðu spáð fyrir um, en þeir gerðu ráð fyrir 0,2% samdrætti. Svipaðar ástæður eru sagðar vera fyrir samdrættinum í Frakklandi og í Þýskalandi, þ.e. smitáhrif frá evrukrísunni. Ólíkt Þýskalandi er hins vegar fátt sem gefur tilefni til bjartsýni þegar horft er fram á veginn í Frakklandi. Stórfyrirtæki eins og Renault eru að segja upp tugum þúsunda starfsmanna og hagkerfið hefur lítið vaxið síðastliðið ár.