Verg landsframleiðsla (VLF) dróst saman um 6,6% að raungildi á síðasta ári samkvæmt fyrstu áætlunum þjóðhagsreikninga Hagstofunnar . Sé horft til landsframleiðslu á mann þá nam samdrátturinn 8,2% en mannfjöldaaukning mældist 1,7% á síðasta ári. Samdráttur landsframleiðslu á mann hefur aldrei verið meiri frá upphafi mælinga árið 1946. Samdráttur hagkerfisins nam 5,1% að raungildi á síðasta ársfjórðungi 2020.

Fækkun ferðamanna vegna heimsfaraldursins spilar stóran þátt í samdrættinum en útflutt ferðaþjónusta lækkaði um 74,4% milli ára. Áætlaður hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu helmingaðist milli ára og nam 3,5% samanborið við 8,0% árið 2019.

Töluverður samdráttur var á utanríkisviðskiptum en innflutningur lækkaði um 22,0% og útflutningur um 30,5% milli ára. Vöruútflutningur dróst saman um 8,5% á árinu en samdráttur í útfluttri þjónustu mældist 51,2%. Vöruinnflutningur minnkaði um 12,5% og innflutt þjónusta um 38,5% á ársgrundvelli. Vöru- og þjónustujöfnuður var neikvæður um 17,5% milljarða króna á síðasta ári, samanborið við 153,9 milljarða króna jákvæðan jöfnuð árið 2019 á verðlagi hvors árs.

Áætlað er að þjóðarútgjöld, samtala neyslu og fjárfestingar, hafi dregist saman um 1,9%, einkaneysla um 3,3%, fjármunamyndun um 6,8% og að samneysla hafi vaxið um 3,1% að raungildi.

Útgjöld Íslendinga erlendis drógust saman um 65,2% frá fyrra ári og námu 62,9 milljörðum króna á síðasta ári, samanborið við 161,9 milljarða króna árið 2019. Hins vegar var aukning í ákveðnum útgjaldaflokkum innlendrar neyslu, líkt og útgjöld vegna kaupa á húsgögnum og öðrum heimilisbúnaði sem jukust um 7,6% að raungildi milli ára.