Fulltrúar Reykjanesbæjar, Norðuráls og Fjárfestingastofunnar, sem er í eigu iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins og Útflutningsráðs, hafa staðfest sameiginlega aðgerðaáætlun um hugsanlega byggingu álvers í nágrenni Helguvíkur. Miðað er við að þarna rísi í áföngum 250.000 tonna álver sem taki til starfa í fyrsta lagi árið 2010 og í síðasta lagi 2015. Fjárfestingastofan aðstoðar við upplýsingaöflun og framgang áætluninnar.

Aðgerðaáætlunin tekur m.a. til samstarfs þessara aðila um undirbúningsvinnu varðandi útfærslu á staðsetningu álversins, orkuöflun, umhverfisskilyrði og þá fjölmörgu skipulagslegu þætti sem lúta að verkefninu.

Fulltrúar Norðuráls, Reykjanesbæjar og Hitaveitu Suðurnesja undirrituðu í maí sl. samkomulag um að kanna möguleika á rekstri álvers í Helguvík í landi Reykjanesbæjar. Í framhaldi af undirritun samkomulagsins var strax hafist handa við frekari könnun á orkuöflun, umhverfisskilyrðum og aðstöðu fyrir álver þar.

Niðurstöður þessarar könnunar lágu fyrir í september og þar kom m.a. fram að hafnarskilyrði í Helguvík eru mjög ákjósanleg og unnt er að byggja 250 þúsund tonna álver á núverandi iðnaðarsvæði í Helguvík í landi Reykjanesbæjar þannig að öllum umhverfisskilyrðum sé fullnægt. Enn fremur kom fram að með því að teygja byggingarsvæðið aðeins til norðurs frá skipulögðu iðnaðarsvæði eru stækkunarmöguleikar enn meiri. Fyrstu athuganir á flutningsleiðum fyrir raforku gefa jákvæð fyrirheit og er lögn í sjó talin líklegur kostur síðasta spölinn frá Fitjum að Helguvík.

Gert er ráð fyrir að undirbúningsvinnu samkvæmt fyrrgreindri aðgerðaráætlun verði lokið eigi síðar en í júlí 2006.