Alls voru lögskilnaðir á Íslandi 515 talsins í fyrra í samanburði við 498 árið áður og 603 pör skráðu sig úr sambúð hjá Þjóðskrá í fyrra í samanburði við 577 pör árið 2006 samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands.

Þó að um sé að ræða lítilsháttar fjölgun á milli ár er varhugavert að ræða um fjölgun skilnaða og má sem dæmi nefna að árið 2005 voru lögskilnaðir 560 talsins og sambúðaslitl 632 talsins.

Af þessum 515 lögskilnuðum voru 310 fjölskyldur þar sem úrskurða þurfti um forsjá barna undir 18 ára aldri.

Af sambúðarslitunum voru 376 barnafjölskyldur. Sú breyting hefur orðið á undanfarinn hálfan annan áratug að sameiginleg forsjá er orðin reglan en ekki undantekningin og í fyrra fóru 76% foreldra sameiginlega með forsjá barna sinna í kjölfar lögskilnaðar, 22% mæðra voru ein með forsjá og 2% feðra.

Sameiginleg forsjá 90% eftir sambúðarslit

Hlutfall sameiginlegrar forsjár var enn hærra í kjölfar sambúðarslita og var sameiginleg forsjá valin í 90% tilvika árið 2007 eftir að foreldrar höfðu slitið sambúð.

Þetta er sömuleiðis kúvending frá fyrri árum og má sem nefna að árið 1992 fóru 9% foreldra sem slitu sambúð sameiginlega með forsjá, 88% mæðra og 4% feðra.

Árið 2000 var forsjá sameiginleg í 59% tilfella á meðan mæður fór með forsjá í 40% tilfella en feður í 1% tilfella.