Sameiginlegt útibú Íslandsbanka og Sjóvá opnar að Miðvangi 1 á Egilsstöðum fimmtudaginn 27. janúar. Helgi Kjærnested verður útibússtjóri Sjóvá og Elísabet Benediktsdóttir verður útibússtjóri Íslandsbanka, en alls verða fimm fastir starfsmenn í útibúinu á Egilsstöðum.

Í tilefni af opnuninni munu Íslandsbanki og Sjóvá gefa leikskólum Fljótsdalshéraðs endurskinsvesti fyrir börnin, sem koma að góðum notum í skammdeginu. Einnig gefa Íslandsbanki og Sjóvá leikskólunum myndbandsupptökuvélar, sem eiga eftir að gagnast vel í leikskólastarfinu.

"Það er löngu tímabært að Íslandsbanki opni útibú á Egilsstöðum," segir Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka. ?Með því að reka sameiginlega útibú fyrir Íslandsbanka og Sjóvá erum við að samþætta banka- og tryggingaþjónustu til hagsbóta fyrir viðskiptavini, sem fá að njóta þess í hagræði, þjónustu og kjörum að sækja alla sína fjármálaþjónustu á einn stað."