Í dag var skrifað undir yfirlýsingu milli Reykjavik Energy Invest, dótturfyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur, og ríkisstjórnar Djíbútí um samstarf í jarðhitamálum, segir í fréttatilkynningu.

Yfirlýsingin kemur í kjölfar útgáfu sérleyfis sem REI fékk til nýtingar á Assal misgenginu í febrúar 2007. Nú er að ljúka fýsileikakönnun á jarðhitanýtingunni. Verði niðurstaða hennar jákvæð er ráðgert að skrifa undir samninga um framkvæmdir og raforkuverð fyrir marslok 2008.

Í yfirlýsingunni ítreka aðilar áform sín sem miða að því að útvega íbúum og atvinnulífi í Djíbútí ódýrari og umhverfisvænni orku. Allt rafmagn í landinu er nú framleitt í díselvélum en talið er að hægt sé að sinna nánast allri raforkuþörf landsins með virkjun jarðhita.

Undirritunin fór fram í Dúbæ, að viðstöddum forsetum Djíbútí og Íslands þeim Ismail Omar Guelleh og Ólafi Ragnari Grímssyni. Þar stendur nú yfir alþjóðleg umhverfis- og orkuráðstefna. Við sama tækifæri skrifuðu Mohamed Ali Mohamed, orku- og auðlindaráðherra Djíbútí, og Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, undir yfirlýsingu um samstarf og sameiginlega hagsmuni ríkjanna. Í henni segir að í ljósi vaxandi mengunar í veröldinni og vaxandi þarfar fyrir umhverfisvæna orkugjafa muni ríkin tvö starfa saman að þróun jarðhitamála til hagsbóta fyrir íbúa landanna, segir í fréttatilkynningu.

Stjórnvöld í Djíbútí telja að skortur á traustri og ódýrri orku sé helsta hindrunin í vegi þróunar í landinu, en þar búa ríflega 700 þúsund íbúar. Djíbútí er þurrviðrasamt og aðgangur að hreinu vatni verður ekki aukinn nema með því að afla orku til að dæla því upp úr djúpum brunnum eða vinna neysluvatn úr sjó. Því binda stjórnvöld þar vonir við að virkjun jarðvarma verði til þess að lífskjör batni, landbúnaður eflist og lífaldur lengist.

Íslenskir vísindamenn hafa um árabil starfað að jarðhitaverkefnum í austanverðri Afríku, þar með talið í Djíbútí og hingað hafa fjölmargir afrískir nemendur sótt menntun á sviði jarðhitanýtingar á vettvangi Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna. Svæðið sem rannsóknirnar munu beinast að er Assal-sprungan sem er á nyrsta hluta plötuskilanna sem ná frá Djíbútí langt suður eftir Afríku austanverðri.