Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, átti fyrir helgi fjarfund með Zhao Leji, forseta Alþýðuþingsins, þjóðþings Kína. Birgir segir markmið fundarins hafa verið að undirstrika mikilvægi þess að Ísland og Kína viðhaldi góðum samskiptum.

„Við fórum yfir ýmis málefni og þar á meðal viðskiptatengsl landana. Það var rifjað upp að þessi tvö lönd eigi í mikilvægum viðskiptum sem ganga í báðar áttir og áréttuðum við mikilvægi þess að byggja upp frá þeim grunni sem við höfum í þeim efnum og þróa þessi viðskipti áfram.“

Kína er stærsti útflutningsmarkaður Íslands í Asíu og um þessar mundir eru tíu ár liðin frá undirritun fríverslunarsamnings milli ríkjanna.

Á fundinum var einnig minnst á aukið vægi í ferðaþjónustu og verkefni á sviði jarðhita og endurnýjanlegrar orku í Kína. Kínverjar hafa sýnt mikinn áhuga á endurnýjanlegri orku en árið 2018 undirritaði Sinopec Green Energy samning við Arcitc Green Energy um virkjun á jarðvarmaorku í Kína.

Birgir greindi einnig frá leiðtogafundi Evrópuráðsins sem haldinn var í síðustu viku og undirstrikaði forseti Alþingis mikilvægi þeirra grunngilda sem Evrópuráðið byggir. Þingforsetarnir ræddu svo um málefni norðurslóða og stríðið í Úkraínu.

„Ég gerði grein fyrir okkar afstöðu í sambandi við innrás Rússa í Úkraínu og undirstrikaði þá áherslu sem Ísland hefur varðandi mannréttindamál. Hann tjáði sig svo um sömu mál en frá öðru sjónarhorni. Eftir atvikum þá komu fram mismunandi sjónarmið en vilji er af beggja hálfu til að viðhalda vinsamlegum samskiptum,“ segir Birgir.