Facebook vinnur nú að því að sameina skilaboðakerfi samfélagsmiðla sinna þannig að notendur mismunandi forrita geti sent skilaboð þvert á þá. Hið nýja kerfi verður byggt á grunni Facebook.

Bloomberg hefur eftir heimilamönnum sínum að forritarar og verkfræðingar hjá Facebook vinni nú að því að endurbyggja skilaboðakerfi Instagram. Það mun gera notendum Instagram kleift að senda skilaboð á notendur Messenger, skilaboðaveitu Facebook. Útlitið á Instagram Direct mun ekki breytast mikið en undirliggjandi tækni taka grundvallarbreytingum.

Mark Zuckerberg, forstjóri og stofnandi Facebook, tilkynnti í fyrra að stefnt væri að því að notendur miðla fyrirtækisins, það er Messenger, Instagram og WhatsApp, gætu sent skilaboð sín á milli þvert á forrit. Búist er við því að það verkefni muni verða nokkuð flókið að útfæra frá tæknilegum sjónarhóli.

Heimildir Bloomberg herma að áætlunin hafi einnig skapað spennu innan fyrirtækisins og utan þess. Ýmsir notendur Instagram og WhatsApp kjósa að nota ekki Facebook þar sem þeir treysta ekki síðastnefnda miðlinum.

Facebook keypti Instagram árið 2012 og WhatsApp árið 2014. Talsmenn WhatsApp og Messenger kusu að tjá sig ekki um efnið við Bloomberg.