Ráður er ný ráðgjafastofa sem stofnuð var í byrjun þessa árs. Fyrirtækið sem sérhæfir sig í að aðstoða fyrirtæki við innleiðingu jafnlaunastaðals var stofnað af þeim Önnu Betu Gísladóttur og Gyðu Björgu Sigurðardóttur en þær kynntust í verkfræðinámi. Hugmyndin að fyrirtækinu kviknaði þegar þær voru báðar í fæðingarorlofi og segir Gyða að brennandi áhugi þeirra á jafnréttismálum hafi orðið til þess að þær ákváðu að einblína alfarið á jafnlaunastaðalinn.

„Það er margt í mótun í kringum jafnlaunastjórnun því það eru svo margir að stíga sín fyrstu skref og það er áhugavert að taka þátt í að móta þessa aðferðafræði,“ segir Gyða.

Jafnlaunavottun var lögbundin í byrjun þessa árs og mun skylda öll fyrirtæki til að fá vottun þess efnis að launaákvarðanir þeirra byggist ekki á mismunun. Öll fyrirtæki með 25 starfsmenn eða fleiri munu þurfa að klára innleiðingu staðalsins á næstu þremur árum. Síðan munu fyrirtækin þurfa að endurnýja vottunina árlega. Staðallinn hefur vakið mikla umræðu og er afar umdeildur. Staðlinum er ætlað að koma í veg fyrir kynbundinn launamun hjá fyrirtækjum en margir hafa gagnrýnt lögin og sagt þau fela í sér mikinn og íþyngjandi kostnað og þá sérstaklega fyrir smærri fyrirtæki sem hafa ekki sérstakt mannauðssvið.

Gyða segist taka undir sumar af þeim gagnrýnisröddum en telur þó umræðuna stundum byggjast á misskilningi. „Auðvitað er þetta kostnaður fyrir fyrirtækin en það er mun ódýrara fyrir þau að innleiða staðalinn heldur en það er að brjóta lögin. Að sjálfsögðu verður þetta erfitt sérstaklega fyrir fyrirtæki sem eru viðkvæm fyrir kostnaði. En ég tel að þessar breytingar muni skila sér að lokum fyrir alla,“ segir hún.

Smæð fyrirtækisins kostur

Fjölmörg fyrirtæki bjóða upp á ráðgjöf við innleiðingu jafnlaunastaðals. Gyða segir að þar sem Ráður sé lítið fyrirtæki geti það afar auðveldlega sérsniðið sig að þörfum hvers fyrirtækis. Það sé gott fyrir fyrirtækin að fá ráðgjöf frá hlutlausum og reyndum sérfræðingum í þessum málum.

„Við sameinum jafnréttismál og verkfræðilega nálgun í greiningum okkar. Það er í rauninni okkar markaðsforskot ásamt því að við erum lítið fyrirtæki og getum aðlagað okkur. Við leggjum sérstaka áherslu á ferlanálgun og tölfræðilega greiningu,“ segir Gyða.

Ráður hefur aðstoðað nokkur stór fyrirtæki við innleiðingu jafnlaunastaðals. Þar ber helst að nefna WOW air, EFLU og Krónuna. Verkefnin hafa gengið mjög vel að sögn Gyðu.

„Þetta er afar skemmtilegt ferli, við höfum fengið góðar viðtökur alls staðar þar sem við höfum komið og allir eru mjög jákvæðir.“

Hún segir þó að það að innleiða nýja verkferla í fyrirtæki feli þó alltaf í sér áskorun. „Það er erfitt að fara í gegnum breytingar og ég hef stundum notað þá samlíkingu að ráðgjafinn leiði fyrirtækið í gegnum nokkurs konar sorgarferli. Það er yfirleitt mjög erfitt að fara í gegnum breytingar en í breytingum geta líka falist mikil tækifæri.“ segir hún.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .