Nox Medical hefur allt frá því að fyrsta vara þess kom á markað vaxið hratt, en til marks um það var félagið inni á lista Financial Times yfir þau nýsköpunarfyrirtæki í Evrópu sem uxu hraðast á milli áranna 2012 og 2015. Pétur sér fram á að samruninn muni gera fyrirtækinu kleift að halda áfram örum vexti.

„Tilgangurinn með þessum samruna er að útvíkka lausnaframboð sameinaðs fyrirtækis með því að samþætta betur tæknilausnir þeirra og þannig auka veltuna, stækka tækifærið og hraða vöxt fyrirtækisins. Nox Medical hefur vaxið hratt frá því að það fyrst hóf sölu á vörum sínum 2009, en velta félagsins á þessu ári er tæplega tuttugu milljónir dollara. Þetta skýrist á því að við höfum byggt upp öflugt dreifinet fyrir vörur okkar.  Þess má geta að samhliða samruna félaganna í Nox Health, mun félagið hverfa frá því að vinna með dreifingaraðila á stærsta markaði fyrir vörur félagsins í Bandaríkjunum og hefur byggt upp eigin sölustarfsemi til þess að ná betur til viðskiptavina sinna og aðlaga tæknilausnir félagsins að þeirra þörfum," segir Pétur og bætir við:

„Á hinum endanum hefur Fusion vaxið hratt á síðustu árum og veitir nú bandarískum stórfyrirtækjum þjónustu sem miðar að því að bæta svefnheilsu starfsmanna þeirra. Heildartekjur FusionHealth nema á þessu ári tæplega tveimur milljörðum króna. Samanlögð velta Nox Health í ár er því rúmlega fjórir milljarðar króna og heildarfjöldi starfsmanna tæplega 200.

Í Bandaríkjunum er áætlað að það séu um 70 milljónir manna sem njóta heilbrigðisverndar í gegnum atvinnurekendur sína, þar sem stórfyrirtæki standa með beinum hætti straum af öllum útgjöldum starfsmanna sinna til heilbrigðismála. FusionHealth þjónustar nú um rúmlega 300.000 þúsund manna þýði og af þeim fá rúmlega 6.000 starfsmenn fyrirtækja daglega meðhöndlun við sínum svefnvandamálum.  Áætlanir okkar gera ráð fyrir að þessi hópur muni stækka verulega á næstu árum. Fyrirtækjum sem við erum að þjónusta mun fjölga og þannig náum við til stærra þýðis starfsmanna auk þess sem almennt er talið að á bilinu 10-20% þessa þýðis geti bætt svefnheilsu sína með því að nýta sér þær lausnir sem við bjóðum. Það er í raun ekkert fyrirtæki í dag sem er með þetta breiða vöru- og þjónustuframboð á sviði svefns líkt og Nox Health er með. Það eru því tækifæri fyrir Nox Health að vaxa verulega á þessum markaði."

N ánar er rætt við Pétur í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .