Hannes Frímann Hrólfsson, framkvæmdastjóri Auðar Capital, verður áfram framkvæmdastjóri fyrirtækisins eftir sameiningu við Virðingu. Hluthafar samþykktu sameininguna á hluthafafundum sem hófust klukkan fjögur síðdegis.  Fyrsti stórnarfundur sameinaða fyrirtækisins verður í kvöld.

Stjórnir félaganna hafa undirbúið sameininguna frá því í ágúst síðastliðnum. Á sameiginlegum hlutahafafundi félaganna var ákveðið að sameinast undir nafninu Virðing hf. Markmiðið með samrunanum er bætt og aukin þjónusta við viðskiptavini og meiri hagkvæmni í rekstri.

Kristín Pétursdóttir, stjórnarformaður Auðar Capital hf., var kjörin stjórnarformaður Virðingar hf. og Magnús Hreggviðsson varaformaður. Með þeim í stjórn félagsins eru Guðbjörg Edda Eggertsdóttir og Rúnar Bachmann. Hannes Frímann Hrólfsson, núverandi forstjóri Auðar Capital, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri þess. Friðjón Rúnar Sigurðsson, núverandi framkvæmdastjóri Virðingar, verður framkvæmdastjóri Rekstrarfélags Virðingar.

Í tilkynningu segir að með samruna Auðar Capital og Virðingar verði til eitt stærsta og öflugasta verðbréfafyrirtæki landsins. Heildareignir í stýringu hjá sameinuðu félagi verða allt að 100 milljarðar króna og heildareignir í fjárvörslu allt að 180 milljarðar króna. Styrkur félagsins eflist sérstaklega á sviði eignastýringar en félagið mun meðal annars reka verðbréfasjóði, veðskuldabréfasjóði, framtakssjóði og ýmsa aðra fagfjárfestasjóði. Félagið veitir einnig þjónustu á sviði  verðbréfamiðlunar  og fyrirtækjaráðgjafar.

Virðing hf. tekur formlega til starfa í núverandi húsakynnum Auðar Capital að Borgartúni 29 fyrir næstu mánaðamót, að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins.