Til umræðu hefur komið eftir útgáfu skýrslu Úttektarnefndarinnar að sameina lífeyrissjóðina í einn stóran sjóð. „Hætt er við því að einn stór sjóður yrði innan skamms bara að deild í fjármálaráðuneytinu,“ segir Helgi Magnússon, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Það er annars margt sem gerir slíkan samruna mjög erfiðan og má þar til dæmis nefna þann grundvallarmun sem er á opinberu sjóðunum annars vegar og almennu sjóðunum hins vegar. Bæði hvað varðar tryggingafræðilega stöðu þeirra og réttindasöfnun sjóðsfélaga. Hins vegar er ekki vitlaust að fækka sjóðunum, en þeir eru núna ríflega þrjátíu talsins.“

Helgi segir að að fækka mætti sjóðunum um þá tíu minnstu. „Ég held hins vegar að sjóðirnir ættu ekki að verða mikið stærri en þeir stærstu eru núna. Sjóðirnir eiga ekki að standa upp úr atvinnulífinu eins og turnar. Það er aftur á móti mikilvægt að samkeppni sé á milli sjóðanna og hægt sé að bera þá saman. Það eykur aðhald með þeim og minnkar hina svokölluðu hjarðhegðun, eins og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins benti nýlega á. “

Nánar er fjallað um stöðu lífeyrissjóðanna eftir hrun í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum Tölublöð hér að ofan.