Bernard Arnault, eigandi LVMH og ríkasti maður Frakklands, reynir nú að sameina eignarhald sitt á Christian Dior og fyrirtækinu LVMH. LVMH framleiðir meðal annars Moet kampavínið. BBC greinir frá.

Fjölskylda Arnault átti þegar stóran eignarhlut í Christian Dior, en vill nú eignast allt fyrirtækið. Takmarkið hjá Arnault var að einfalda eignarhaldið í fyrirtækjunum tveimur fyrir alls 10 milljarða evra.

Gengi bréfa Christian Dior hækkaði um 12% í gær og hlutabréf í LVMH um 4%. Auðæfi Arnault eru metin á 51 milljarð dollara samkvæmt Forbes. Hann á einnig hlut í Hermes og verslunarkeðjunni Carrefour.