Kandadíska tæknifyrirtækið BlackBerry hefur tekið höndum saman með breska fyrirtækinu VoxSmart um þróun tækni sem gerir bönkum kleift að fylgjast með skilaboðum sem miðlarar (e.traders) senda með WhatsApp forritinu og öðrum forritum sem dulkóða skilaboð.

Bankar og önnur fjármálafyrirtæki víða um heim fylgjast nú þegar með símum, tölvupóstum og smáskilaboðum starfsmanna sinna til að gæta þess að reglur um innherjaviðskipti séu ekki brotin. Skilaboð sem eru send með WhatsApp eru hins vegar dulkóðuð um leið og þau eru send og geta þeir því ekki fylgst með samskiptum í gegn um smáforritið eða önnur forrit sem Facebook á.

Tækni VoxSmart leysir þetta vandamál með þeim hætti að hugbúnaðurinn flygist með símanum sem skilaboðum sem send eru og tekur af þeim afrit áður en dulkóðunin á sér stað. Margir bankar þar á meðal Deutsche Bank hafa nú þegar bannað notkun forrita sem dulkóða skilaboð í vinnusímum starfsmanna sinna. Vandamálið er hins vegar að fleiri og fleiri fyrirtæki hafa tekið upp þá stefnu að starfsmenn noti sín eigin tæki í störfum sínum.

Í yfirlýsingu frá BlackBerry og VoxSmart kemur fram að tæknin muni hjálpa fyrirtækjum að uppfylla skilyrði Mifid II reglugerðarinnar sem tekur gildi í byrjun næsta árs. Nýja reglugerðin kveður meðal annars á um að öll afrit af öllum rafrænum samskiptum sem eiga sér stað í kring um viðskipti verði geymd í 5 ár.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá á dögunum hefur BlackBerry farið í gegn um  mikla endurskipulagningu og stefnubreytingu undir stjórn núverandi forstjóra John Chen. Fyrirtækið hefur í dag lagt niður alla farsímaframleiðslu og felst starfsemi þess nú í þjónustu og þróun á hugbúnaði auk sérhæfingar í Interneti hlutanna (e. Internet of things).