Heildarsamtök launafólks og vinnuveitenda ásamt stjórnvöldum undirrituðu á þriðjudag samkomulag um að setja á stofn samstarfsnefnd um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga. Nokkur aðdragandi hefur verið að umræddu samstarfi og er það nýbreytni í fyrirkomulagi kjaraviðræðna.

Markmiðið með samvinnunni er að bæta þekkingu og fagleg vinnubrögð við undirbúning kjarasamninga og er hugmyndin að allir samningsaðilar byggi viðræðurnar á sömu efnahagslegum forsendum. Magnús Pétursson ríkissáttasemjari mun stýra starfi nefndarinnar sem verður skipuð forystumönnum aðila vinnumarkaðarins. Nefndin mun eiga samstarf við Hagstofu Íslands, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Seðlabanka Íslands og aðra eftir atvikum.