Stofnun skattrannsóknarstjóra ríkisins (SRS) verður lögð niður frá og með 1. maí næstkomandi. Þetta felst í lögum um fyrirkomulag rannsóknar og saksóknar í skattamálum sem voru samþykkt á Alþingi nú rétt í þessu.

Alls kusu 29 þingmenn með því að frumvarpið yrði að lögum en þau atkvæði komu frá viðstöddum þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna auk Viðreisnar. Viðstaddir Miðflokksmenn, þrír talsins, sátu hjá en fulltrúar Pírata, Samfylkingar og Flokks fólksins, sem tíu voru, greiddu atkvæði gegn frumvarpinu. Átján þingmenn voru fjarverandi.

Umrædd lög fela í sér viðbrögð við dómum Mannréttindadómstóls Evrópu um fyrirkomulagið hér á landi hvað varðar meðferð meintra skattalagabrota. Málið hefur verið á döfinni í nokkurn tíma en legið hefur fyrir síðan 2017 að bragarbót yrði að gera. Starfhópur var skipaður um málið árið 2019 og þriggja manna nefnd vann áfram með niðurstöður hópsins í byrjun árs 2020.

Samkvæmt lögunum verður SRS lagt niður og það sameinað Skattinum. Smávægilegum málum, þar sem upphæðin er undir 50 milljónum króna, verður að meginstefnu lokið með álagningu sekta á stjórnsýslustigi en stærri mál verða send í sakamálarannsókn og mögulega ákærumeðferð.

Tvö önnur mál samþykkt samhljóða

Minnihluti efnahags- og viðskiptanefndar þingsins, lagði til eftir 1. umræðu að ríkisstjórnin fengi málið í hausinn á ný. Betur færi á því að SRS yrði veitt ákæruvald í málaflokknum til að koma í veg fyrir tvíverknað í kerfinu sem síðan gæti haft í för með sér frekari áfellisdóma úti í Strasbourg. Meirihlutinn var á öndverðri skoðun.

Til hálfgerðra ritdeilna hafði komið í athugasemdakerfi þingsins vegna frumvarpsins og þess fyrirkomulags sem þar var lagt til. Þar kom til að mynda fjármála- og efnahagsráðuneytinu nokkuð á óvart að SRS hafði horn í síðu hluta frumvarpsins þrátt fyrir að hafa verið upplýst um framgang mála á fyrri stigum. Þá höfðu lögmenn kallað eftir því að núverandi sakamál, sem til rannsóknar væru eða til meðferðar fyrir dómi, yrðu felld niður. Þingnefndin taldi nægilegt að dómstólar yrðu vel á varðbergi yfir því að tvöföld málsmeðferð eða refsing færi ekki fram.

Gildistaka laganna er strax 1. maí næstkomandi en við það tekur Skatturinn við öllum málum SRS sem auk þess að starfsfólk síðarnefnda embættisins færist á milli.

Á sama tíma voru samþykkt samhljóða tvö frumvörp fjármála- og efnahagsráðherra. Annað þeirra fjallar um skattalega hvata til lögaðila sem starfa til almannaheilla en hitt um breytingar á tekjuskatti sem hvetja á til fjárfestinga.