Jarðaumsýsla fjármála- og efnahagsráðuneytis og fasteignaumsýsla Fasteigna ríkissjóðs munu sameinast undir nafninu Ríkiseignir. Mun stofnunin taka til starfa 1. mars næstkomandi og verður meginhlutverk hennar hagkvæm og skilvirk umsýsla eigna ríkisins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Sameiningunni er ætlað að stuðla að hagkvæmari ríkisrekstri. Með henni færast dagleg verkefni sem tengjast jarð- og fasteignum ríkissjóðs á einn stað.

„Ríkiseignir munu sinna útleigu, viðhaldi og rekstri fasteigna í eigu ríkissjóðs, umsýslu og skráningu fasteigna og jarðrænna auðlinda ríkisins, ásamt daglegri umsýslu jarðeigna í eigu ríkissjóðs, sjá um ábúðarmál og hafa umsjón með leigusamningum, innheimtu jarðarafgjalda og leigugreiðslna, auk þess að sinna samskiptum við leigutaka, ábúendur, sveitarfélög og aðra opinbera aðila,“ segir í frétt á vef ráðuneytisins.

Eignarráð á málaflokknum verða áfram á hendi fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Ríkiseignir verða með aðsetur í Borgartúni 7 í Reykjavík og verða sextán störf í sameinaðri stofnun. Þar af færast fimm störf úr fjármála- og efnahagsráðuneytinu og ellefu störf frá Fasteignum ríkisjóðs.

Framkvæmdastjóri verður Snævar Guðmundsson sem verið hefur framkvæmdastjóri Fasteigna ríkissjóðs.