Greinendur hjá ráðgjafarfyrirtækinu Capacent spá því að N1 muni gjörbreytast við kaupin á Festi og að þau muni auka verðmæti hluthafa um 12%. Þetta kemur fram í nýju verðmati frá Capacent sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum.

Þá er einnig talið að sameiningin verði til þess að framtíðarhorfur fyrirtækisins séu mun bjartari en í lok júlí samþykkti Samkeppniseftirlitið kaup N1 á Festi með skilyrðum líkt og greint var frá .

Verðmat sameinaðs félags N1 og Festis er tæplega 42,3 milljarðar króna og er verðmatsgengið 128 samanborið við verðmatsgengið 114 ef ekki hefði orðið að sameiningunni.

Samanlagðar tekjur félaganna voru 77 milljarðar á síðasta ári en þar af voru tekjur N1 35 milljarðar. Samanlögð EBITDA félaganna var rétt tæpir 6,9 milljarðar króna.

Rekstaráætlanir fyrir hið sameinaða félag liggja ekki fyrir en á síðasta ári gaf N1 það út að búist væri við að vænt samlegðaráhrif af sameiningunni væri um 500 til 600 milljónir króna eða um 4% af rekstrarkostnaði sameinaðs félags.

Að mati greinenda Capacent eru samlegðaráhrif um 450 milljónir á ári en búist er við að mikill kostnaður muni fylgja sameiningunni, þrátt fyrir að forstjóri félagsins, Eggert Þór Kristófersson, hafi látið þau orð falla á kynningarfundi að kostnaðurinn væri óverulegur.

Afkoman vel yfir væntingum

Afkoma N1 á fyrri hluta þessa árs var vel yfir væntingum greinenda Capacent en sala fyrirtækisins jókst um 19% milli ára og framlegðin um 10%.

Rekstarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var um 1.477 milljónir króna og nam hlutfall EBITDA og framlegðar um 26,7%.

Við óbreyttan rekstur fyrirtækisins hefði verðmat ráðgjafarfyrirtækisins á N1 hækkað um 6,5% og hefði verðmatsgengið farið úr 107 yfir í 114.

Samdráttur blasti við

Hefði sameining félaganna ekki komið til er ljóst að mikill samdráttur hefði átt sér stað hjá fyrirtækinu.

Hækkun eldsneytisgjalds um áramótin og bann við nýskráningu bifreiða sem ganga fyrir eldsneyti upp úr 2030 mun koma til með að ýta undir innflutning ökutækja sem ganga fyrir rafmagni og mun eflaust hafa áhrif á rekstur fyrirtækisins.