Eigendur Ris ehf og Keflavíkurverktaka hf hafa undirritað með sér samkomulag um samruna félaganna. Viðræður og endanlegur frágangur er áætlaður í lok nóvember. Bæði félögin hafa verið umsvifamikil á byggingamarkaðnum á undanförnum árum og hafa reist mikinn fjölda íbúða og atvinnuhúsnæðis til endursölu auk fjölmargra framkvæmda fyrir almenn fyrirtæki og opinberar stofnanir. Þá hafa Keflavíkurverktakar til margra ára einnig verið með mikil umsvif á Keflavíkurflugvelli.

Í tilkynningu vegna kaupana segir að verkefnastaða fyrirtækjanna í dag er mjög góð og er m.a. verið að vinna að yfirbyggingu yfir Gjánna í Kópavogi, stóru atvinnuhúsnæði að Dalshrauni 1 í Hafnarfirði, Bónusverslun Hafnarfirði, 30 íbúðir í Sandavaði, 70 íbúðir við Sléttuveg Rvk. Tengivirki við Kárahnjúkavirkjun, Sundmiðstöð í Reykjanesbæ og Björgunarmiðstöðin í Skógarhlíð.

Samlegðaráhrif félaganna eru mikil og með samruna þeirra verður til eitt stærsta og öflugasta fyrirtæki landsins á sviði byggingariðnaðar. Markmiðið með sameiningunni er að stofna öflugt fyrirtæki sem getur ráðist í stór og viðamikil verkefni.

Hjá hinu sameinaða fyrirtæki munu starfa um 400 manns og er áætluð velta þess á yfirstandandi ári áætluð um 6 milljarðar króna.