„Það er verið að tala saman en við erum ekki búin að klára þetta ennþá. Ef allt gengur eftir þá verður gengið frá sameiningunni á næstu vikum,“ segir Kristján Freyr Kristjánsson, framkvæmdastjóri frumkvöðlasetursins Innovit um sameiningu við nýsköpunarmiðstöðina Klak.

Kristján segir að enn eigi eftir að útfæra sameininguna, s.s. undir hvaða þak nýsköpunarhúsin flytja. Klak er til húsa í Ofanleiti 2. Fasteignafélagið Reginn keypti fasteignina nýverið og mun verkfræðistofan Verkís flytja í húsið.

„Þetta eru allt saman atriði sem við erum að vinna að. En þegar búið verður að ganga frá sameiningunni í heild sinni og skrifa undir pappíra þá munum við tilkynna um sameininguna. Þetta er komið af stað,“ sagði Kristján. Hann gat af þeim sökum ekki tjáð sig nánar um málið að sinni.