Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins hafa fulltrúar Samtaka atvinnulífsins (SA) og Viðskiptaráðs hist einu sinni á fundi til að ræða sameiningu. Hins vegar segja viðmælendur blaðsins, sem þekkja til beggja samtaka, að lítill áhugi sé á sameiningu en á hinn bóginn sé mikill áhugi á frekari samstarfi samtakanna.

Um miðjan september fór Vilmundur Jósefsson, þá starfandi formaður SA, þess á leit við Viðskiptaráð Íslands að teknar yrðu upp viðræður um sameiningu samtakanna. Í samtali við Viðskiptablaðið þá sagði Vilmundur að möguleg sameining SA og Viðskiptaráðs gæti haft mjög góðar afleiðingar en með sameiningu væri þarna orðinn til mjög öflugur málsvari atvinnulífsins.

Nú eru liðnar rétt rúmar þrjár vikur frá því að erindið var sent en síðan þá hafa orðið nokkrar breytingar hjá samtökunum. Þannig hafa báðir formenn samtakanna, þeir Þór Sigfússon hjá SA og Erlendur Hjaltason hjá Viðskiptaráði, sagt af sér. Vilmundur en nú orðinn formaður SA en við hlutverki Erlendar tók Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .