Ari Edwald, forstjóri 365, segir að sameining Fréttablaðsins og Árvakurs, taki ekki gildi fyrr en að fengnu samþykki Samkeppniseftirlits. Stofnunin hafi allt að 100 daga til þess að skoða málið. Hann segir að engar breytingar eigi að verða hjá þeim 50 starfsmönnum sem eru í vinnu hjá ritstjórn Fréttablaðsins. en vísaði á Einar Sigurðsson, forsjtóra Árvakurs, spurningum um stöðu starfsmanna Morgunblaðsins og 24Stunda.

Ari segir stefnt að sameiningu annarra rekstrarþátta en ritstjórnarinnar. Ari svaraði ekki spurningum um hvort framleiðsla og umbrot blaðsins flytjist yfir til Árvakurs en sagði að auglýsingasala blaðanna yrði aldrei sameiginleg enda væri stefnt að útgáfu sjálfstæðra blaða.

365 er nú stærsti einstaki hluthafinn í Árvakri með 36,5% hlut. Þrjú félög, tengd Björgólfi Guðmundssyni, eiga um 11% hvert, Valtýr, félag erfingja Valtýs Stefánssonar, á um 13%. Smærir hluthafar eru Lyfjablóm og Garðar Gíslason.

Hvað varðar aðra þætti rekstrar 365 en Fréttablaðið sagði Ari Edwald að með sameiningu Fréttablaðsins og Árvakurs færu skuldir inn í nýtt félag. Eftir sem áður séu skuldir 365 miklar og við blasi að greiða 1.450 milljóna króna skuldabréfaflokk í nóvember. "Það er auðvitað snúið viðfangsefni hvernig okkur takist að endurfjármagna það við þessar aðstæður," sagði Ari. "En það er næsta stórverkefni stjórnenda félagsins."