Útibú Landsbankans og þau sem áður heyrðu undir Sparisjóð Vestmannaeyja á Höfn og Selfossi verða sameinuð frá og með mánudeginum 27. apríl. Útibúin verða til að byrja með rekin í húsnæði Landsbankans á þessum stöðum, en að loknum lagfæringum á Höfn mun bankinn flytja starfsemi sína í húsnæði sparisjóðsins. Húsnæði Landsbankans á Höfn verður þá selt. Kemur þetta fram í tilkynningu frá bankanum.

Þá hefur verið ákveðið að reka áfram afgreiðslur á Breiðdalsvík og á Djúpavogi og hefur sveitastjórnum þessara staða verið tilkynnt um það.

Við sameingu útibúa á Selfossi og Höfn láta sex starfsmenn af störfum, en tveir þeirra óskuðu ekki eftir áframhaldandi starfi í sameinuðu útibúi. Þá flyst einn starfsmaður á höfuðborgarsvæðið að eigin ósk og fær starf hjá bankanum þar.

Landsbankinn rekur eftir þessar breytingar 35 útibú og afgreiðslur um land allt.