*

þriðjudagur, 22. júní 2021
Innlent 10. september 2018 10:51

Sameining við Wow áhugverð en óraunhæf

Stjórnarformaður Icelandair bendir á að markaðshlutdeild Wow air og Icelandair á flugferðum yfir Atlantshafið sé nálægt 3%.

Ingvar Haraldsson
Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður Icelandair.
Haraldur Guðjónsson

Rekstur íslensku flugfélaganna hefur þyngst undanfarin misserin. Frá júlí í fyrra til loka júní á þessu ári nam rekstrartap Wow air 45 milljónum dollara eða um 5 milljörðum króna. Að óbreyttu eru líkur á að tap verði á rekstri Icelandair Group á þessu ári. Því hefur verið velt upp hvort mögulegt sé að Icelandair og Wow air muni einhvern tímann sameinast.

Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður Icelandair Group segir að miðað við núverandi samkeppnislög gengi það ekki upp þó hugmyndin sé áhugaverð.

„Miðað við núverandi samkeppnislög í landinu er það, held ég, ekki hægt. Það væri um margt áhugavert að minnsta kosti að skoða hvað það þýddi ef þessi tvö félög gætu sameinast. En samkeppnislögin eru bara með þeim hætti að það myndi ekki ganga. Samt er stærsti hluti af starfsemi beggja fyrirtækja á markaðnum frá Evrópu til Ameríku og Ameríku til Evrópu. Samtals erum við með um 3% hlutdeild svo ekki erum við með ráðandi hlutdeild þar, heldur er það umferðin til og frá Íslandi sem veldur því að það gengur ekki upp," segir Úlfar.

Þá telur Úlfar samanburð á flugfélögunum ósanngjarnan gagnvart báðum flugfélögum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.