Breyttar rekstraraðstæður í ferðaþjónustu í kjölfar styrkingar krónunnar eru líklegar til að kalla á sameiningar smærri fyrirtækja í greininni til að þær geti betur ráðið við sveiflur í rekstri.

Útlit er ekki gott um góða afkomu hjá fjölda fyrirtækja í greininni þrátt fyrir metsumar í ferðaþjónustu og vega þar launahækkanir og styrking krónunnar mestu.

Styrkleiki byggður á veikri krónu horfinn

„Ef aukin ferðamennska hefur að einhverju leiti byggst á veikri krónu þá er þessi styrkleiki algjörlega horfinn,” segir einn viðmælandi Túrista sem fjallar um málið .

Telur hann ekki svigrúm til að hækka gjaldskrár meðal annars því að breytingar síðustu ára á virðisaukaskatti á ferðaþjónstu hafi farið beint út í verðlagið.

Launakostnaður vegur hátt

Bendir Túristi á að á meðan ferðamönnum hefur fjölgað um ríflega 70% á síðustu tveimur árum, þá hafi kostnaðurinn í krónum líka hækkað, meðal annars í launakostnaði sem vegi hátt.

Eigi það sérstaklega við um fyrirtæki sem sérhæfi sig í afþreyingu eða veitingasölu. Þar sé algengt að launagreiðslur séu um helmingur alls kostnaðar, en í flugi og gistingu vegi laun mun minna.

Háir vextir á dýrum fjárfestingum

„Fyrir tveimur árum fengust 154 krónur fyrir eina evru en í dag er virði hennar 119 kr. Tekjulækkunin í evrum talið nemur nærri fjórðungi á tímabilinu en til samanburðar hefur breska pundið lækkað um 28 prósent en bandarískur dollari minna eða um ríflega tíund. Spár flestra aðila gera ráð fyrir frekari styrkingu krónunnar á næstu misserum,“ segir í fréttinni.

„Það hefur verið mikil fjárfesting í ferðaþjónustu að undanförnu. Ekki aðeins í afkastagetu fyrirtækja heldur einnig í hótelbyggingum og öðrum dýrum mannvirkjum. Slíkt er ekki gert án skuldsetningar og aðallega í krónum. Þessi lán bera háa vexti og þau verða ekki greidd nema að fyrirtækin séu rekin með hagnaði.“