Stærsta verkalýðsfélag Bretlands, Unite, er sagt vera nærri því að sameinast einu stærsta bandaríska verkalýðsfélaginu, United Steelworker's Union (USW). Sameiningin myndi búa til félag með meira en þrjár milljónir meðlima í Bretlandi, Bandaríkjunum, Kanada og víða í karabíska hafinu. BBC segir frá þessu.

Félögin eru sögð hyggja á að handsala samrunann í júlí, þegar USW heldur sína árlegu ráðstefnu. Sameiningin er sögð tímamót í aðgerðum verkalýðsfélaga til að bregðast við alþjóðavæðingunni.

Verkalýðsfélögin eru sögð hafa átt viðræður í Lundúnum í liðinni viku. Þrátt fyrir að vinnulöggjöf sé mismunandi í löndunum vonast verkalýðsforkólfar til að sameiningin muni veita þeim sterkari samningsstöðu gagnvart alþjóðlegum fyrirtækjum.

Sameiningin er hugsuð til þess að skapa regnhlífarsamtök fyrir verkalýðsfélög víða um heim, með sameiginlega stjórnun og leiðtoga. Fregnir herma að hvatamenn sameiningarinnar séu nú að hvetja verkalýðsfélög í hraðvaxtarhagkerfum á borð við Asíu, Austur-Evrópu og Suðurameríku að slást í hópinn.