Viðræður eru hafnar um sameiningu Íslenskra verðbréfa og GAM Mamagement, samkvæmt heimildum vb.is. Morgunblaðið greindi frá því í morgun að hluthafafundur Íslenskra verðbréfa hefði samþykkt það að hefja slíkar viðræður í síðustu viku en samkvæmt heimildum vb.is eru viðræðurnar nokkuð vel á veg komnar. Ekki er þó komin niðurstaða í þær ennþá. Einn viðmælenda vb.is sagði að það ætti ekki að taka langan tíma fyrir eigendurna að taka ákvörðun um það hvort af sameiningunni verður, en lengri tíma gæti þó tekið að fá heimild frá eftirlitsstofnunum.

Árið 2011 skiluðu Íslensk verðbréf 163 milljóna króna hagnaði og eigið fé var 441 milljón króna. Hagnaður GAMMA árið 2011 nam 125 milljónum króna og eigið fé var 221 milljón króna. Eignir í stýringu hjá ÍV voru 130 milljarðar króna í árslok 2011 og GAMMA var með 24 milljarða króna í stýringu á sama tíma.