Ákveðið var á stjórnarfundum Sparisjóðs vélstjóra (SPV) og Sparisjóðs Hafnarfjarðar (SPH) í morgun, fimmtudaginn 27. apríl, að veita stjórnarformönnum þeirra umboð til að hefja viðræður um sameiningu sparisjóðanna.

Í tilkynningu félagannakemur fram að SPV og SPH hafa átt mjög náið og gott samstarf til margra áratuga, en með sameiningu verður til stærri og öflugri rekstrareining sem koma mun viðskiptavinum til góða um leið og starfsmönnum verður tryggt traustara starfsumhverfi. Með stærri og öflugri sparisjóði fjölgar möguleikum til framþróunar og sóknar og verður hann betur í stakk búinn til að takast á við flóknari og viðameiri verkefni en áður. Sameiningin mun einnig styrkja sparisjóðakerfið í landinu og samstarf sparisjóðanna.

Einnig var ákveðið að formenn sparisjóðanna komi á fót samrunanefnd sem skipuð verður tveimur fulltrúum frá hvorum aðila.

Gert er ráð fyrir því að Sparisjóður vélstjóra og Sparisjóður Hafnarfjarðar haldi nöfnum sínum óbreyttum og fjöldi afgreiðslustaða verði óbreyttur.