*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 6. september 2020 14:05

Sameiningin sannað gildi sitt

Varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika segir að sameining FME og Seðlabankans hafi þegar sannað gildi sitt í Covid ástandinu.

Sveinn Ólafur Melsted
Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika.
Gígja Einarsdóttir

Á upphafsdögum Gunnars Jakobssonar í starfi varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika voru horfur innan hagkerfisins strax orðnar talsvert verri en áður hafði verið reiknað með þegar hann var skipaður í embætti. 

„Þegar ég var skipaður í starfið voru ekki nein teikn á lofti um að 2020 yrði verulega erfitt ár. Vissulega var reiknað með samdrætti í atvinnulífinu, útlán til fyrirtækja höfðu minnkað aðeins en almennt var ekki talið að krísa gæti verið yfirvofandi. Frá áramótum hafði átt sér stað vinna við að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið og vorum við því rétt að byrja á þeim verkefnum sem fylgdu þeirri sameiningu þegar veiran setti allt úr skorðum. Það voru því margar áskoranir sem biðu okkar en auðvitað var allt sem varðar efnahagslífið sett í forgang," segir Gunnar.

Hann segir þó jákvætt að íslenska þjóðin komi inn í þessa kreppu í allt annarri stöðu en í síðustu kreppu árið 2008.

„Hvað áhrifin á efnahagslífið varðar eru þau svipuð eða heldur verri nú en árið 2008 þegar horft er til þjóðarframleiðslu og áhrifa á hagkerfið. Þessi samanburður er nærtækur en staðan í dag er þó allt önnur en hún var þá. Núna búum við yfir miklum gjaldeyrisforða komandi inn í þetta ástand, litlar skuldir ríkissjóðs, auk þess sem við vorum með tiltölulega hátt vaxtastig í samanburði við önnur lönd og höfðum því svigrúm til þess að lækka vexti. Við erum einnig með stjórnkerfi og stjórnvöld sem hafa gengið í gegnum efnahagsþrengingar áður og má sjá að margar af þeim leiðum sem komið hefur verið á til að bregðast við ástandinu eru hugmyndir sem verið er að endurnýta. Til dæmis eru hlutabótaleiðin, útgreiðsla séreignarsparnaðar og innviðafjárfestingar allt úrræði sem notuð voru í síðustu kreppu. Landið kemur því mun betur undirbúið inn í þessa kreppu. Það er mjög ánægjulegt að sjá hvað stjórnvöld og Seðlabankinn hafa verið samhent og gengið í takt í gegnum faraldurinn," segir Gunnar og bætir við að blessunarlega hafi verið farið af stað í sameiningarvegferð Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins áður en faraldurinn skall á.

„Boðleiðir innan sameinaðs Seðlabanka milli eftirlits, fjármálastöðugleika og peningastefnu eru miklu styttri en áður. Gildi sameiningarinnar hefur því þegar sýnt sig í þessari kreppu. Við erum enn skammt á veg komin og eigum eftir að sýna enn betur fram á hve skynsamleg ákvörðun það var að sameina þessar stofnanir."

Óvissan erfiðust

Spurður um hvernig staða í efnahagsmálum og fjármálakerfinu hér á landi í dag blasi við sér, viðurkennir Gunnar að staðan sé erfið.

„Það erfiðasta við þetta ástand er öll óvissan í kringum veiruna. Í mars voru ákveðnar væntingarum að þessir erfiðleikar gætu að nokkru leyti gengið yfir á þremur til fjórum mánuðum svo færu hjólin aftur að snúast og talað var um að kannski næðist einn mánuður af sumrinu í ferðaþjónustu. Þær vonir fóru dvínandi er leið á vorið en svo náðust góð tök á veirunni í byrjun sumars sem after blés von í brjóst og þýddi að þessi eini mánuður af ferðaþjónustu gekk eftir, þó ekki af sama krafti og í venjulegu árferði. Innlend neysla var hins vegar mun kröftugri en við höfðum reiknað með þannig að þrátt fyrir allt litu hlutirnir aðeins betur út í lok júlí. En þá skall á önnur bylgja smita hér á landi sem og víðar um heim. Núna er óvissan því jafnvel orðin enn meiri en áður, , og menn byrja að velta fyrir sér hvort baráttan við veiruna muni vara í heilt ár eða jafnvel lengur."

Gunnar segir þó jákvætt hve sterkt íslenskt bankakerfi standi. „Má þar þakka nærumhverfi bankanna og þeim kröfum sem gerðar eru til banka hér á landi, sem eru allt aðrar og meiri en gerðar voru fyrir efnahagshrunið," segir Gunnar og nefnir í því samhengi eiginfjárkröfur, lausafjárkröfur og eftirlit með starfseminni. Þar að auki séu bankarnir í dag mun einfaldari en þeir voru áður. „Þeir eru í innlána- og útlánastarfsemi, það er ekki mikið um flókna fjármálagerninga og ekki mikil óvænt áhætta innan efnahagsreikninga þeirra. Bankarnir hafa tekið vel til á efnahagsreikningum sínum undanfarin ár og eru því í stakk búnir til að takast á við ástandið."

Nú hafa brúarlán og stuðningslán verið nýtt minna en reiknað var með. Getur þú tekið undir þau sjónarmið að fyrirtæki þurfi fremur á styrkjum að halda en lánsfé?

„Ég hef ekki skoðað neinar hugmyndir eða útfærslur með styrki og hvernig það myndi ganga upp. Styrkir eru alltaf vandmeðfarnir útaf öllum þeim hvötum sem þeim fylgja. Heppilegast er að bæði eigendur og bankakerfið eigi hagsmuni undir að ástandið sé rétt metið en ekki að ríkið komi eitt að því með styrkjum. Ég er ekki að segja að styrkir til fyrirtækja þýði það að þau hafi ekki hagsmuni af því að vel gangi, en vil benda á að það þarf að vanda til verka ef það á að fara þá leið. Minn útgangspunktur er sá að styrkir séu ekki heppilegasta leiðin og við ættum að leita annarra leiða áður en við förum þangað, en vil ekki útloka neitt," segir Gunnar og bætir við að hann geri ráð fyrir að fleiri fyrirtæki muni nýta sér stuðningslán og brúarlán þegar líða tekur á haustið. 

Nánar er rætt við Gunnar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér