Í viðtali við Hannes Hilmarsson, forstjóra Air Atlanta, í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins verður ekki hjá því komist að rifja upp það erfiða tímabil sem félagið gekk í gegnum á árunum 2005-2008.

Félagið var sem kunnugt er stofnað árið 1986 af hjónunum Arngrími Jóhannssyni og Þóru Guðmundsdóttur. Félagið sinnti hinum ýmsu leiguverkefnum og óx jafnt og þétt næstu ár þó starfsemin hafi farið hægt af stað. Magnús Þorsteinsson, sem þá var einn helsti samstarfsmaður Björgólfsfeðga, eignaðist 51,5% í félaginu í lok árs 2002 og síðar enn stærri hluta.

Til að gera langa sögu stutta sameinuðust Air Atlanta og Íslandsflug árið 2005 og sama ár keypti félagið Eimskipafélagið og til varð samstæðan Avion Group. Það hefur þó ekki farið framhjá þeim sem fylgjast með viðskiptalífinu að félagið lenti í töluverðum vandræðum næstu ár á eftir og síðustu ár hafa stjórnendur og núverandi eigendur barist fyrir því að halda fyrirtækinu á floti, eða lofti svo vísað sé til flugsins.

Uppsafnað tap á rekstri félagsins á árunum 2005-2008 var um 100 milljónir Bandaríkjadala fyrir skatta. Aðspurður um þá stöðu sem félagið var komið í segir Hannes að vandræðin hafi í raun byrjað í kjölfar sameiningar Air Atlanta og Íslandsflugs.

„Þá var tveimur ólíkum félögum steypt saman og úr varð stærsta flugfélag á Íslandi með um 50 vélar af 10 mismunandi tegundum,“ segir Hannes.

„Í kjölfar sameiningarinnar haustið 2005 tók stjórn Avion Group þá ákvörðun að hætta rekstri á Boeing 737/757/767 farþega- og fraktvélum og leggja áherslu á fraktflug á breiðþotum. Í kjölfarið hófst mikill niðurskurður á flugflota félagsins, þar sem yfir 30 flugvélar voru teknar úr rekstri á 24 mánaða tímabili. Þessi niðurskurður skapaði gríðarlegt rekstraróhagræði og álag á starfsfólk félagsins og hafði í för með sér mikinn taprekstur. Samfara niðurskurði á flugflota félagsins þurfti að fækka jafnt og þétt starfsfólki í höfuðstöðvum þess á Íslandi. Eftir á að hyggja var sameiningin misstigið skref.“

Á árinu 2006 varð sú stefnubreyting að Avion Group ákvað að selja allan flugrekstur og einbeita sér að rekstri skipa, frystigeymsla og flutninganets undir merkjum Eimskipafélagsins. Hannes fékk það hlutverk sem nýráðinn forstjóri Air Atlanta að fylgja sölunni á félaginu eftir. Þrátt fyrir að hafa átt í viðræðum við nokkra aðila gekk ekki eftir að selja félagið.

„Menn sáu einfaldlega ekki fyrir þá miklu óhagræðingu sem átti eftir að koma í ljós við niðurskurð á flugflota félagsins,“ segir Hannes þegar blaðamaður ýjar að því að félagið hafi nú varla verið mjög söluvænt á þessum tíma.

Nánar er rætt við Hannes í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Þar fer Hannes yfir rekstur félagsins í þeirri miklu ókyrrð sem það lenti í eftir sameiningu við Íslandsflug árið 2005, hvernig skera þurfti niður í rekstrinum og að lokum fara í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu sem nú er á lokastigi. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.