Um síðustu aldamót stofnaði Heiða Birgisdóttir hið þekkta fatamerki Nikita, en föt undir merkjum þess eru seld í yfir 100 verslunum í Kanada og Bandaríkjunum. Á dögunum kvaddi Heiða vörumerkið sem hún byggði upp um árabil og gekk til liðs við Cintamani sem yfirhönnuður.

Auk Heiðu hafa þau David Young og Guðrún Lárusdóttir gengið til liðs við Cintamani, en þau unnu bæði hjá Nikita í fjölda ára. Guðrún er framleiðslu og vöruþróunarstjóri Cintamani og David er listrænn stjórnandi.

Nýir eigendur umturnuðu Nikita

„Fyrir rúmum fjórum árum seldum við Nikita til Amer Sports, sem á mörg önnur vörumerki í sportbransanum og þar á meðal Salomon, Arcteryx og Suunto, sem eru allt stór vörumerki. Þeir sáu möguleika í Nikita og vantaði einhvern kvenvöruvinkil inn í fyrirtækið. En þeir héldu líklega að leiðin til að auka söluna væri að eltast við einhver „trend“ sem eru í gangi og vildu fara að gera línur sem mér fannst ekki passa,“ segir Heiða.

Hún segir að Amer Sports hafi smám saman losað sig við allan upprunalega hópinn í kringum Nikita og umturnað vörumerkinu. „Síðan reka þeir sig á það að það er ekkert að búa til meiri sölu. Þannig að þeir gefast í rauninni upp og ná að selja aftur fyrirtækið fyrir tæpu ári, til fyrirtækis í Singapúr sem á verslanir í Japan og hefur verið að selja Nikita,“ segir Heiða.

Salan á Nikita-vörum hafði hins vegar minnkað mikið undir stjórn Amer Sports og segir Heiða að ekki hafi fengist mikið fjármagn í vöruþróun undir stjórn nýrra aðila til að byrja með. Heiða sá fyrir sér að halda áfram, en það breyttist smám saman. „Samningaviðræður þróuðust í þá átt að ég fór að hugsa hvort kannski væri tími til kominn að hætta. Þetta var einhvern veginn ekki að passa. Við náðum einhvern veginn ekki saman.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .