Skroll er nýtt smáforrit eða „app“ fyrir Apple snjalltæki þar sem vinahópar geta skapað myndbrot, myndbönd, texta og myndir fyrir áskoranir, leiki, spuna, sketsa – og í raun hvað sem er. Skroll er þróað af hugbúnaðarfyrirtækinu Fronkensteen.

„Skroll er smáforrit þar sem þú og vinir þínir búa til eitthvað skemmtilegt saman. Þetta er eins konar samfélag fyrir alls konar skemmtun og fíflagang – í jákvæðasta skilningi orðsins,“ segir Gunnlaugur Jónsson, framkvæmdastjóri Fronkensteen. „Ímyndunaraflið er eina takmörkunin fyrir því sem hægt er að setja inn í forritið.“

Fyrsta útgáfa Skroll lenti í App Store, netverslun frá Apple, fyrir rúmum mánuði síðan.

„Við erum að setja þetta í loftið núna. Til að byrja með er Skroll eingöngu til fyrir Apple snjalltæki. Síðan kemur forritið síðar fyrir Android, en þeir sem ekki hafa aðgang að Apple snjalltækjum geta fylgst með á skroll.is með því að skrá sig inn í gegnum Facebook,“ segir Gunnlaugur, sem bendir á að allir meðlimir grínhópsins Mið-Ísland séu byrjaðir að nota appið.

Skapandi tól

„Þetta virkar þannig að þú tekur upp fyrsta myndbrotið með símanum þínum í appinu og leggur eitthvað upp sem aðrir geta haldið áfram með. Þessi myndbrot mynda síðan það sem við köllum „Thing“, eða eina runu sem fær sitt eigið líf. Svo er hægt að deila myndbandinu á Facebook eða Twitter. Sá sem stofnar upprunalega myndbrotið ræður síðan hverjum hann býður inn í hópinn og getur lagfært rununa,“ segir Gunnlaugur.

Skroll byggir á þeirri hugmynd að gefa snjallsímanotendum skapandi tól.

„Fólk er orðið vant því að nota snjallsíma og taka upp myndskeið. En þegar nýjabrumið fer af einhverri tækni þarf að skapa eitthvað bitastæðara fyrir hana. Þess vegna er þessi „myndbands-dýnamík“ mikilvægt nýtt skref og gefur fólki tól til að vera meira skapandi. Þetta er sáraeinfalt, en gerir svo margt mögulegt.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .