Næstkomandi laugardag mun UAK dagurinn fara fram í þriðja sinn, en um er að ræða ráðstefnu sem félagið Ungar athafnakonur stendur fyrir og er tileinkuð ungum konum í íslensku atvinnulífi. Hver ráðstefna er tileinkuð tilteknu þema og í þetta skiptið er þemað samfélagsleg ábyrgð. Í ár ber ráðstefnan yfirskriftina: Næsta skref í þágu framtíðar. Meðal þeirra kvenna sem halda erindi á ráðstefnunni eru Ásta Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, og Edda Hermannsdóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptasviðs Íslandsbanka.

„UAK dagurinn var fyrst haldinn árið 2018 og var fjórða iðnbyltingin þema þeirrar ráðstefnu. Í fyrra var hið svokallaða glerþak þema ráðstefnunnar og var yfirskrift ráðstefnunnar: Brotið glerþak til frambúðar. Núna í ár er svo röðin komin að samfélagsábyrgðinni. Ástæðan fyrir því að þetta þema varð fyrir valinu er að undanfarið hefur samfélagsábyrgðin verið mikið í umræðunni innan atvinnulífsins og samfélagsins alls. Sem dæmi má nefna að nú nýlega gaf Fréttablaðið út sérblað um samfélagslega ábyrgð, Festa hélt nýlega ráðstefnu tileinkaða samfélagsábyrgð og á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs, sem fór fram fyrir skömmu, var mikið komið inn á þetta málefni. Á ráðstefnunni verður farið yfir hvað felst í samfélagslegri ábyrgð, hvaða máli hún skiptir og hvaða tækifæri séu til staðar fyrir einstaklinga og fyrirtæki á því sviði," segir Snæfríður Jónsdóttir, formaður UAK.

Stærsti viðburður ársins hjá UAK

Snæfríður bendir á að samfélagsleg ábyrgð sé mjög opið og víðfeðmt málefni og því hafi verið ákveðið að einblína á ákveðin málefni innan hennar á ráðstefnunni. „Það verður m.a. fjallað um fjölbreytileika í stærra samhengi og umhverfismálin, sem er ein stærsta áskorun sem fyrirtæki standa frammi fyrir í dag. Allt umfjöllunarefni verður skoðað í tengingu við jafnrétti, enda tengjast jafnréttismál nær öllu sem viðkemur samfélagslegri ábyrgð."

UAK dagurinn er að sögn Snæfríðar stærsti viðburður hvers árs hjá félaginu.

„Það hefur alltaf verið mikill áhugi fyrir þessum ráðstefnum og hefur vanalega selst upp á þær. Í þetta skiptið verður ráðstefnan haldin í Gamla bíói og dagskráin er stútfull af áhugaverðum erindum og panelumræðum," segir Snæfríður. Hún gerir fastlega ráð fyrir að miðar á ráðstefnuna muni seljast upp, enda hafi einungis örfáir miðar verið óseldir í byrjun vikunnar.