Álver Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði hóf rekstur árið 2007. Um er að ræða stærsta álver landsins, en alls flytur fyrirtækið um 350 þúsund tonn af málmi til Evrópu og það árlega. Alls koma um 550 starfsmenn og 300 verktakar að starfseminni. Magnús Þór Ásmundsson tók við sem forstjóri Alcoa á Íslandi árið 2012.

Hleifar, vír og stangir

Magnús segir fyrirtækið flytja rúmlega 350 þúsund tonn af áli úr landi á ári hverju. Um helmingur þess eru virðisaukandi málmar sem nýtast í margvíslegum iðnaði. „Stærra hlutfall fer nú í virðisaukandi vörur. Um er að ræða stangir og víra, sem eru annars vegar notaðir í bílaiðnaðinn og hins vegar í rafiðnaðinn. Segja má að helmingurinn sé nú í álhleifum og hinn í virðisaukandi vörum.“

Allar vörur Alcoa hér á Íslandi fara að sögn Magnúsar til Evrópu. „Virðisaukandi vörurnar eru framleiddar beint fyrir viðskiptavini. Álið sem er í hleifum fer á markað og er selt í gegnum vöruhús í Evrópu.“

Fyrirtækið keppir á alþjóðlegum mörkuðum og þarf því sífellt að aðlagast aðstæðum. Magnús segir það vera áskorun, en til þess að sigrast á henni þurfi ýmislegt til. „Við höfum lagt áherslu á að auka framleiðni hjá okkur, með því að þróa okkar starfsfólk, með því að efla mannauðinn, vinnustaðamenningu, öryggi og umhverfismál.“

Álverðið áskorun

Það gefur auga leið að markaðsverð á áli skiptir fyrirtæki á borð við Alcoa miklu máli. „Álverð fór niður í efnahagskreppunni og hefur þó heilt yfir stigið síðan. Það er árleg eftirspurnaraukning sem nemur um 5 til 6 prósentum. Það er mjög jákvætt fyrir áliðnaðinn.“ Magnús segir framleiðslu í Kína einnig skipta miklu máli, landið er stærsti álframleiðandi í heimi og því hafi framleiðsla þar sífellt áhrif á álverð.

Hann segir fyrirtækinu þó hafa tekist að fullnýta framleiðslugetu að hverju sinni og er bjartsýnn á að verð á áli fari stígandi. „Árið 2017 hefur álverð verið að stíga. Við erum bjartsýn á að það haldi.“ Hækkun á áli hefur þó einnig áhrif á hráefnin sem nota þarf til framleiðslunnar, en súrálið kemur til að mynda mestallt frá Ástralíu og Brasilíu.

Miklar fjárfestingar ár hvert

Fyrirtækið er með raforkusamning til 40 ára og því eru raforkumálin þekkt umhverfi hjá félaginu. Magnús segir það þó alltaf mikilvægt að hafa augun opin. „Raforkuverð í Evrópu og á Norðurlöndunum hefur farið lækkandi. Það þýðir að samkeppnishæfni Íslands hefur breyst og því þurfum við að vera vakandi yfir því.“

Samkeppnishæfni Alcoa Fjarðaáls er þó að sögn Magnúsar virkilega góð og því góða starfi þurfi að halda áfram. „Þetta snýst allt um að halda samkeppnishæfninni. Það er núna ýmislegt framundan. Bæta á ferla til þess að auka skilvirkni og framleiðni. Í fyrra hækkuðum við til að mynda straum. Það var vandasamt verkefni.“

Hann segir fyrirtækið fjárfesta fyrir um 10 milljónir Bandaríkjadala á ári hverju. „Árlega fer fram endurskoðun á okkar vinnuferlum. Við viljum gera enn betur. Mér finnst við hafa sýnt það að það er góður bisness að bæta öryggi, jafnrétti, umhverfi og fyrirtækjabrag. Það hefur skilað okkur árangri í framleiðni.“

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .