„Ef markmiðið er að byggja upp fyrirtæki sem standast tímans tönn hlýtur slíkt að fela í sér heiðarleg viðskipti, góða starfsmannastefnu, sjálfbæra nýtingu auðlinda og samkeppnishæfan rekstur“, segir Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Hann segir skilgreiningu á samfélagslegri ábyrgð alls ekki vera einhlýta enda byggi hún að miklu leyti á huglægu mati. „Í mínum huga felst ábyrgð í því að leggja megináherslu á langtímauppbyggingu fyrirtækja og starfa samkvæmt settum leikreglum og góðum stjórnarháttum.“

Niðurstöður í nýrri rannsókn Festu um samfélagsábyrgð sýna að flestir hugsa um umhverfismál eða styrki og stuðning við samfélagsleg verkefni þegar spurt er um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja. „Hver verkaskipting á milli stjórnvalda, almennings og atvinnulífs í góðgerðar- og umhverfismálum skiptir ekki öllu máli. Fyrirtæki geta hagað sér með óábyrgum og ósjálfbærum hætti á sama tíma og þau styðja af krafti við umhverfis- og góðgerðarmál. Slíkt myndi seint falla undir samfélagslega ábyrgð. Ábyrgð fyrirtækjastjórnenda felst því fyrst og fremst í því að tryggja langtímahagsmuni allra þeirra sem eiga í viðskiptum við viðkomandi fyrirtæki, þ.e. viðskiptavini, starfsmenn, birgja og hluthafa. Það eru sameiginlegir hagsmunir allra þessara aðila að fyrirtæki séu rekin með verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi og því felur slíkt í sér samfélagslega ábyrgð.“

Í þessari sömu rannsókn kemur fram að tæpur helmingur almennings telur íslensk fyrirtæki hafa jákvæð áhrif á samfélagið. Fjórðungur tekur ekki afstöðu eða veit ekki hvaða áhrif þau hafa.

Nánar er fjallað um þessar niðurstöður í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í dag.