Truth Social, nýi samfélagsmiðill Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseta, var settur í loftið á App Store í gærkvöldi. Sjósetning smáforritsins gæti markað endurkomu Trump á samfélagsmiðla en hann var settur í bann á Twitter og Facebook í ársbyrjun 2021, stuttu í kjölfar áhlaupsins á þinghúsið í Washington.

Forritið var sjálfkrafa halið niður hjá notendum sem höfðu forskráð sig. Margir notendur áttu í erfiðleikum með að skrá sig á miðilinn og voru settir á biðlista með meldingunni: „Vegna gífurlegrar eftirspurnar höfum við sett þig á biðlista.“

Heimildarmaður Fox segir að stefnt sé að því að fjölmenna miðilinn með nýjum notendum sem höfðu forskráð sig á næstu tíu dögum. Þá er stefnt að því að Truth Social verði að fullu starfhæfur í mars, að minnsta kosti í Bandaríkjunum, að því er kemur fram í frétt Reuters . Ekki er að finna Truth Social ef skoðað er App Store með íslenskum aðgangi.

Samfélagsmiðillinn opnaði í síðustu viku fyrir stjórnmálafólk, áhrifavalda og aðra valda einstaklinga.

Fyrirtækið að baki Truth Social samfélagsmiðlinum heitir Trump Media & Technology Group (TMTG). Í október var tilkynnt um að til stæði að fara með það á markað í gegnum samruna við sérhæfða yfirtökufélagið (SPAC) Digital World Acquisition Corp. Ekkert annað SPAC-félag hefur hækkað hlutfallslega jafnmikið í markaðsvirði og Digital World.

Sjá einnig: Trump leiðir SPAC-lestina

TMTG ætlar ekki að reiða sig á innviði stórra tæknifyrirtækin á borð við Amazon Web Services (AWS) og ætlar fremur að treysta á skýjaþjónustu Rumble.